Söngkeppnin fellur niður

24. mars 2021

Söngkeppni framhaldsskólanna sem til stóð að halda um miðjan apríl hefur verið slegin af vegna aðstæðna sem leiða af Covid-19 heimsfaraldrinum.

Keppnin er haldin á vegum Sambands íslenskra framhaldsskólanema en rekstraraðili keppninnar, Brand Events á Akureyri, hefur undanfarnar vikur leitað leiða til að framkvæma hana innan þeirra ramma sem uppfylltu sóttvarnarreglur. Í ljósi þeirra takmarkana sem fyrir voru á fjölda áhorfenda er ljóst að framkvæmdin er ómöguleg að svo stöddu.

"Það er von okkar að geta haldið keppni næsta vor en það er háð möguleikum okkar til miðasölu," segir Hlynur Þór Jensson, framkvæmdastjóri keppninnar. "Vonandi náum við að halda veglega keppni í Íþróttahöllinni á Akureyri eins og tíðkaðist áður fyrr."