- Söngkeppni framhaldsskólanna
a. Hvað er Söngkeppni framhaldsskólanna?
Söngkeppni framhaldsskólanna er menningar- og hæfileikakeppni þar sem nemendafélög framhaldsskóla á Íslandi keppa um besta söngvarann. Nemendafélög tilnefna sinn þátttakanda með undankeppni innan síns skóla þar sem sigurvegari öðlast þátttökurétt í Söngkeppni framhaldsskólanna. Allir framhaldsskólar á landinu eiga rétt á framlagi í keppnina.
b. Fyrirkomulag
Söngkeppni framhaldsskólanna fer fram í beinni útsendingu ár hvert. Keppnin fer fram 12.apríl 2025. Hver skóli sendir einn keppanda til keppni þar sem keppendur flytja allir eitt lag sem sungið er á íslensku. Sigurvegari er valinn með símakosningu og dómnefnd.
c. Val á vinningslagi
Símakosning hefst með niðurtalningu kynna í sjónvarpi og lýkur með niðurtalningu kynna að loknu síðasta lagi. Þegar allir keppendur hafa flutt sitt lag kýs dómnefn sín á milli um niðurstöðu keppninnar og skilar sinni niðurstöðu til framkvæmdastjórnar. Niðurstöður dómnefndar vega 50% á móti 50% vægi símakosningar. - Þátttökuskilyrði – Keppandi, lög og textar.
a. Stranglega bannað er að koma fram í Söngkeppni framhaldsskólanna undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.
b. Keppandi þarf að vera skráður nemandi í framhaldsskóla á Íslandi.
c. Lag keppanda má vera hvaða lag sem er, frumsamið eða tökulag.
d. Skilyrði er að öll lög séu sungin á íslensku. Ef framlag skóla er með erlendum texta þarf keppandi að útvega laginu nýjan texta á íslensku.
e. Höfundar nýrra íslenskra texta eru ekki bundnir við það að vera nemendur í framhaldsskóla.
Ef keppandi er af erlendu bergi brotinn og óskar eftir því að fáundanþágu frá þessari reglu þarf nemendafélag að hafa samband við framkvæmdastjórn og óska eftir undanþágu með skriflegum rökstuðningi.
f. Þar sem keppnin er í beinni útsendingu er tímalengd laga ákvörðuð út frá fjölda þátttakenda hverju sinni en má þó ekki vera lengri en 3 mínútur. Framkvæmdastjórn getur ákveðið að tímalengd sé skemmri en 3 mínútur. Fari framlag skóla yfir þann tíma sem framkvæmdastjórn setur þarf keppandi í samvinnu við tónlistarstjóra að stytta sitt lag til að lagið falli inn í settan tímaramma.
g. Söngkeppni framhaldsskólanna leggur til hljómsveit sem leikur undir hjá öllum keppendum. Engar undanþágur eru veittar gegn þessu atriði. - Miðasala
a. Allir miðar verða seldir á Tix.is eða sambærilegri miðasölusíðu.
b. Skólarnir hafa ekki forgang að miðum og getur hver sem er keypt sér miða á keppnina.
- Dómnefnd og símakosning
a. Framkvæmdastjórn keppninnar skipar 3 manna dómnefnd. Í nefndinni situr fagfólk á sviði tónlistar, svo sem laga- eða textahöfundar, söngvarar, hljóðfæraleikarar, upptökustjórar, plötusnúðar eða aðrir sem hafa atvinnu af tónlist eða tónlistarsköpun.
b. Vægi dómnefndar er 50% á móti 50% vægi símakosningar.
c. Komi upp tæknileg vandamál við símakosningu hefur dómnefnd 100% vægi og ákveður sigurvegara.
- Tónlistarstjóri og hljómsveit
a. Tónlistarstjóri Söngkeppni framhaldsskólanna stjórnar útsetningu laga, æfingum og leggur til röðun keppnislaga.
b. Tónlistarstjóri aðstoðar keppendur við útfærslu lags og val á tóntegund með samtölum og æfingum.
c. Jafnræðis verður gætt við úthlutun tíma keppanda með hljómsveit og tónlistarstjóra.
- Kynningarstarf
a. Nemendafélag þarf að senda inn mynd af sínum keppanda sem hægt er að nota til kynningar. Þessar myndir gætu verið notaðar á opinberum miðlum keppninnar í kynningarskyni ásamt því að vera notaðar í beinni útsendingu.
b. Innslög keppenda eru stutt kynning á atriði hvers skóla og skólanum sjálfum.
c. Innslög keppenda sem notuð verða í beinni útsendingu verða framleidd í samstarfi við RÚV.
- Ýmis mál
a. Verðlaun
Sigurvegari söngkeppni framhaldsskólanna hlýtur vegleg verðlaun sem verða tilkynnt í beinni útsendingu á meðan keppni stendur.
• Sigurvegari keppninnar hlýtur Hljóðnemann – Farandbikar Söngkeppni framhaldsskólanna.
b. Siðferði
Þátttakendur þurfa að heita því að hafa ekki í frammi ósæmilega hegðun sem getur sært blygðunarkennd áhorfenda eða annarra þátttakenda. Brot á siðareglum getur varðað brottrekstur úr keppninni.
c. Brot á reglum
Komi til þess að þátttakandi brjóti reglur keppninnar áskilur framkvæmdastjórn sér fullt vald til þess að útiloka þátttöku viðkomandi.
- Framkvæmdastjórn
Framkvæmd og ábyrgð keppninnar er í höndum framkvæmdastjóra Söngkeppni ehf skv. samningi undirrituðum 13.apríl 2023.
Framkvæmdastjórn Söngkeppni framhaldsskólanna er skipuð eftirfarandi aðilum, ár hvert:
• Framkvæmdastjóri Söngkeppni ehf.
• Verkefnastjóri sjónvarpsútsendingar f.h. RÚV
• Tónlistarstjóri Söngkepnni framhaldsskólanna
• Formaður Sambands framhaldsskólanema á Íslandi
Hlutverk framkvæmdastjórnar er að ræða sín á milli vafamál sem geta komið upp ásamt því að mynda stefnu keppninnar á hverju ári.
- Gildistími reglna
Þessar reglur öðlast gildi 1.janúar 2025 og gilda í eitt ár í senn. Þessar reglur eru allar birtar með fyrirvara um breytingar. Framkvæmdastjórn áskilur sér fullt vald til þess að breyta reglum sé þess þörf og tilkynnir þátttakendum það um leið og þess gerist þörf.